Samskiptavísur
Einstakur maður kom til mín á stofuna í júní sumarið 2011, sem ég hef kynnst betur á einu ári. Björgúlfur hefur náðargáfu að setja saman vísur. Þegar hann kom til mín í þriðja meðferðarskiftið skildi hann eftir vísu:
Tryggvi þú ert traustsins verður
trúr á þínu sviði,
enda vel af guði gerður
gælir við hryggjarliði.
Hann hafði kvalist af bakverk um tíma og kláraði meðferð á rúmum mánuði. Að endingu skildi hann eftir aðra vísu:
Hnykkina ég þakka þér
þú ert vel heppnaður,
vegna nuddsins nú ég er
nýr og betri maður.
Björgúlfur fær slæmt tak í bakið í febrúar 2012 við að glíma við heyrúllu. Hann kom í heimsókn á stofuna, og eftir tvö skifti var hann albata. Seinni dagurinn sem hann kemur er aftaka veður, og áður en hann leggur á heiðina heim aftur, skilur hann eftir sig vísu:
ÞAð var frábært þetta nudd
þannig skapar tækifæri,
til lífsgleði er leiðin rudd
ljúft ég þekka vinur kæri.
Eins og fólk þekkir nota ég landpóst til að minna á endurkomu. Hann fékk eina slíka áminningu og kom þó ekkert væri takið. Hafði á orði að það væri betra að koma einu sinni of oft til mín en einu sinni of sjaldan. Þegar hann kvaddi gerði hann það með vísunni:
Þegar í baki vex upp vandi
og viljakraftur þverr
þá er alveg ómissandi
að eiga nudd hjá þér.