Kiropraktik – Kiropraktor

 

Kiropraktík er fræðigrein sem fjallar um einstaklinginn í heild sinni. Þó er athygli kiropraktorsins beint sérstaklega að heilbrigði hryggjarins og röskun á eðlilegri starfsemi hans. Grundvöllurinn er bygging og staða hryggjarsúlunnar, hreyfing hennar og burðareiginleiki. Lykilatriði er einnig hæfileiki hryggsins til eðlilegrar endurhæfingar. Sjúkdómar sem valda verk í hrygg, hvort sem þeir eru í hryggnum sjálfum eða tengjast hrygg tilfinningalega eru grunnatriði í starfseminni.

Til samanburðar vil ég draga upp tvær aðferðir sem kiropraktorar beita í skoðun og meðferð. Aðferðafræði       a) Gillet aðferðafræði og b) Gonstead aðferðafræði.

Hverjir leita til Kiropraktors? Þeir eru helst þekktir fyrir að taka fólk til meðferðar sem kvartar um bakverk. Algengustu ástæður fyrir komu einstaklinga er það markmið að fá meðferð og bata við kvillum sem eru í mjóbaki, brjóstbaki, herðum og hnakka. Ástæður heimsóknanna eru margvíslegar.

 Heimsókn til kiropraktors. Gestur sem í fyrsta skipti kemur í móttöku á stofuna fær ávallt viðtal og upphafsskoðun. Einnig fær gestur sem er á skrá stofunnar ávallt nákvæma skoðun á þeim vanda sem steðjar að núna. Viðtalið fjallar gjarnan um sögu og lýsingu á einkennum á breiðum grundvelli og spurningar um einkennamynstur og ýmsa samverkandi þætti í lífi og starfi er velt upp. Skoðunina má flokka í hreyfiskoðun, vöðvaskoðun, beina- og taugaskoðun og skoðun á líkamsstöðu.

 

  1. Hreyfiskoðun og vöðvaskoðun, sem ég framkvæmi er grunduð á almennri hreyfiskoðun á svæði hryggjar sem kvartað er um. Ósamræmi í hreyfingu sem fundnar eru við skoðun með tækni sem heitir “inclinometry”. Ósamræmi í hreyfingu gefur vísbendingar um festumein í vöðvafestum við bein sem er oft hluti af einkennamynstri við skoðun. Við hreyfiskoðun í upphafi meðferðar og endurtekningu á sömu skoðun í ferli meðferðar kemur í ljós breyting á hreyfigetu sjúklings samfara bata. Lengdar og styrktarskoðun á vöðvum í leit að festumeinum eða vöðvabólgu. Ég styðst við í styrktarskoðun með hátækni tækjum.
  2. Beina og taugaskoðun, bólga í liðamótum hryggjar. Allt eru einkenni tákn sem benda kiropraktornum á samhengi verkja og bólgu. Í öllum tilvikum leita ég að bólgueinkennum í liðamótum hryggjar sem tengist því svæði hryggjar sem er í brennidepli hjá hverjum og einum. Ég skoða líkamsstöðu og skekkju hryggjar, og starfsemi tauga ef saga er um vanda þar.
  3. Skoðun á líkamsstöðu. Kírópraktískar greiningar taka til hryggskekkju og líkamsstöðu. Ég smíðaði skoðunartæki snemma á ferlinum, tæki sem ég nota við frumleit að rangri stöðu og hryggskekkju. Ég hef frá fyrstu tíð notað skoðunartæki sem ég byggði á eigin hugmynd. Ég hef alltaf notað tækið til að meta hryggskekkju sem kemur best fram í uppréttri stöðu. Með tækinu er skoðuð lengd fótleggja, og fæst ávallt ótvíræð vísbending ef um skekkju á stöðu líkama er að ræða. Í gegn um tíðina hef ég alltaf skráð hrygglengd allra sem hafa komið hingað og get gert samanburð á hrygglengd á milli ára og áratuga.
  4. Kiropraktisk greining. Greining er alltaf stillt upp í famhaldi af skoðun. Hjá einstaklingum sem koma í fyrsta skipti í greiningu er ávallt stillt upp eftir skoðun og fyrir fyrstu meðferð. Greiningar flokka má sjá í skýrslu hér undir upplýsingar “skýrsla 2016”.
  5. Meðferðin. Í grunninn er ferlitími meðferðar almennt aðeins einn mánuður frá upphafsskoðun til loka meðferðar. Meðhöndlunin eða hnykkingin (adjustment) krefst mikillar kunnáttu. Hryggjarliðirnir eru í okkur flestum 24, og spjaldhryggurinn sem mynda sveigjanlega langa súlu. Liðamótin á milli hryggjarliðanna eru liðþófar (liðþófar eða brjóskskífur mynda allir saman 1/3 af hæð hryggjarins. Ysti hluti liðþófans er gerður úr trefjum en innri hluti er gerður úr hlaupkenndum kjarna. Aðalhlutverk liðþófanna er að vera höggdeyfir súlunnar) og bogaliðir eða liðhyrnur (Hryggjarliðirnir tengjast líka saman með tveimur litlum liðamótum sitt hvoru megin á beinbogum hryggjarliðanna Hlutverk þessarra liða er fyrst og fremst að stjórna hreyfingum hryggjarliðanna og þá á hverju liðbili sem í heild mynda hryggsúluna). Hryggurinn hefur stoð af mjaðmargrindinni, rótin er þar og bolurinn er bakið. Eðlilegar sveigjur hryggjarins eru í mjóbaki og hálsi en brjóstbakið hefur beygju sem leyfir litla hreyfingu aðra en öndun. Á milli liðbola og beinboga  hryggjarliða er gat sem mænan liggur í gegn um. Taug gengur út hvoru megin við liðþófann alla lengd hryggjarins. Fastir hryggjarhlutar eru mjaðmagrindin, brjóstbakið og hnakkinn. Liðbönd tengja hluta hryggjarins saman eins og réttuvöðvarnir gera. Réttuvöðvarnir hafa það eðli að stífna af burðarálagi líkamans. Liðþófar sem höggdeyfar er stífur vefur og stöðnun á gróanda þar er til vandræða. Einnig eru liðamót við 12 sett af rifbeinum. Allt í allt um 107 liðamót. Hnykkmeðferðin lagar vandræði sem skapast af stífum réttuvöðvum og minna fjaðrandi liðþófum. Kiropraktorinn kann að hnykkja til sérhverju liðamóti í hryggnum og jafnvel 3-4 aðferðir á hverjum hryggjarlið. Hnykktæknin fer eftir aðferðafræðinni sem notuð er fyrir hvern og einn. Í hvert sinn sem hnykkt er þarf kírópraktorinn að taka allan slaka úr liðnum, og hnykkja að enda jafnt og hreyfitakmörk liðsins leyfir. Meðferðin er liðkandi og liðleikinn verkjastillandi. Við bætist að líkamsstaðan bætist, tilfinning fyrir þreytu verður eðlileg og öndun stillist inná verkjalaust ástand ef meðferðin heppnast vel.
  6. Útkoma meðferðar er aðalatriðið sem allt snýst um. Í því samhengi vinnur kírópraktorinn eftir gömlu og góðu máltæki að í upphafi skal endirinn skoða. Rannsóknir hafa sýnt að kírópraktorsmeðferð flýtir fyrir eðlilegum bata, er ódýrt meðferðarúrræði í samanburði við aðra læknistengda meðferð. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að til lengri tíma litið þá lagast verkjavandi meira í hnykkmeðferð kírópraktors meira en í hefðbundinni sjúkraþjálfun.(Breen 1986) Ef verkvandi lagast af sjálfu sér á stuttum tíma eins og rannsóknir hafa sýnt fram á er eflaust engrar meðferðar þörf, en ef verkjavandi er bráður, mikill eða langvarandi er kírópraktormeðferð upplögð til að lina þjáningar hratt og bæta líðan. Algengt er að gesturinn vilji fá ráðleggingar á úrræðum við hryggjarvanda. Nú hefur þróast hér á stofunni samskiftablað þar sem kennsla á úrræðum við bakvanda er snar þáttur í meðferðinni. Alltaf er það á nótum lýðheilsu einstaklingsbundið og saumað að þörfum hvers og eins.
  7. Meðferðarlok er tímabil sem allir hlakka til. Viss binding er hjá kúnna sem er í fysiskri meðferð og ferðalag til og frá stofu getur oft reynst tímafrekt. Þó að meðferðarskipti hjá kiropraktor taki að meðartali 15 mínútur er samt nausynlegt fyrir vinnuveitendur og fjölskyldu eða vinahóp að skilja vanda einstaklings til að gefa tækifæri á að stunda meðferð á tímabilinu. Umkvörtunarefnin sem ýttu upphaflega hópnum til meðferðar leysast vel þegar á heildina er litið. Hér á stofunni eru send út áminningarbréf um endurkomu. Það sýnir sig að 70% af þeim sem koma til meðferðar eru einkennalausir og ráða við bakið. Í 30% tilvika er endurmeðferðar þörf, og viðleitni er hér á stofunni að fylgjast með hópnum svo sem bestur árangur náist.
  8. Árið 1994 gerði ég úrtak úr skrám hjá mér og fékk aðstoðarlandlæknir í teymi til að skoða ýmsa þætti sem beindist að útkomu meðferðar. Þá voru 33% sem hættu ótímabært við meðferð. Þetta olli mér á þeim tíma nokkrum heilabrotum, og endaði með könnun sem aðstoðalandlæknir þá gerði til að skoða hvernig kúnnum mínum reiddi af 2 árum eftir meðferðarlok. Svarhlutfall var 67%. Í þeirri könnun kom fram að flestir komu til meðferðar vegna ábendingar vina. Heimilislæknar bentu á kiropraktor. Flestir hættu vegna þess að þeir töldu einkenni sín vera horfin eða þótti meðferðin of dýr. 90% líkaði mjög vel, vel eða sæmilega við meðferðina. Það sem kom skemmtilega á óvart í könnuninni 1994 var að 65% kúnnanna sem lentu í úrtakinu voru einkennalausir eða einkennaminni 2 árum eftir meðferð hjá kiropraktornum.
  9. Samtekt. Heimsókn til kiropraktorsins er oftast vegna vanda í hrygg, sem tengist tilfinningum sem eru oft ýtt til hliðar. Það er s.s. jafnvægi, góð hreyfing og liðleiki, verkir, öndun, þreyta. Stór hópur hefur notað meðferð hjá kiropraktor og kannanir hafa sýnt að meðferðin dugar til verkjastillingar og til að auka vellíðan til lengri tíma. Hreyfitruflanir hverfa við meðferðina, bólgur í liðamótum hverfa og samskiftin gefa gott innsæi til að meta bata og úrræði. Samtarf á milli kiropraktors og læknis nauðsynleg þar sem ábyrgð kiropraktors er mikil að leita að réttri greiningu. Meðferðin er mjög hættulítil hjá faglærðum.
  10. Ýtarefni um námið. Nokkuð margir skólar eru í heiminum í dag sem kenna til kírópraktors. Í BNA, Englandi og Danmörku eru háskólarnir bundnir að kenna sambærilegt nám, eða 18 skólar sem eru viðurkenndir af “European council on Chiropractic Education”. Fyrri helmingur námsins samanstendur af kúrsum í grunnfögum líkamsvísinda og í faglegum vísindum sem tengjast skoðun og meðferð sjúklings. Þessi hluti námsins er að mörgu leiti sambærilegur því sem gerist í læknanámi. Seinni hlutinn eru annars konar en í læknadeild Háskólans, í því að læknaneminn gengur í gegn um fagmenntun tengda sjúkrahúsi. Klíniska menntun fá kírópraktornemar í menntun í hnykkingu á hrygg og hnykkingu á liðum útlima, sjúkraþjálfun, roentgentækni, og framkvæmd og ástundun reksturs og stjórnunar kírópraktorstofu. Síðasta árið er síðan ástundun og vinna á meðferðarstofu skóla sem er eitt ár sem gefur reynslu frá fyrstu hendi í greiningu og meðferð á vandamálum sem tengjast burðarlíffæri líkamans, þar með talið höfuðverkjum. Hér má benda á viðbót 1, ‘Curriculum of university level chiropractor training in Scandinavia’ í Odense University Dk. Samræming á stöðluðum menntunareiningum kírópraktoraskóla gerir nemum ekki skylt hvernig meðferðinni skuli háttað. Skólarnir kenna venjulega mismunandi aðferðafræði í undirbúningi meðferðar og hnykkingu á meini í starfandi hreyfibili hryggjarliða (subluxation eða functional unit lesion). Skólarnir eftirláta hverjum kandidat að ákveða sjálfur hvernig aðferðafræði og meðferð hann kýs að nota við meðferð á gesti stofunnar. Hér á landi endar nám íslenskra kírópraktora í eins árs vinnu hjá kírópraktor. Er þetta skylda fyrir starfsleyfi sem Heilbrigðis og tryggingaráðuneytisins veitir fyrir rekstur kírópraktorstofu.

Aðferðafræði Henry Gillet. Aðferðafræði sem er að miklu leiti komin frá evrópskum kírópraktorum og er kennd við Gillet. Gillet var belgískur kírópraktor sem hlaut menntun sína í BNA um og upp úr 1930. Þegar hann kom til síns heimalands til að stofna kírópraktorstofu fékk hann ekki leyfi til að kaupa eða reka roentgentæki. Hann gat því ekki notað hugmyndafræði Palmers (sjá undir aðferðafræði Gonstead) til að leita að staðbundnum skekkjum á hryggjarliðum með ‘spinograph’ og þannig kortlagt meðferðarúrræði í hnykkingu. Hann reyndi þá að leita leiða og finna önnur úrræði til að grundvalla meðferð á. Í leit sinni notaðist hann við þá aðferð að sitja fyrir aftan sjúkling sinn. Aðra hendina notar hann til að hreyfa hryggjarliði á viðkomandi og hina hendina notar hann til að finna hvernig samliggjandi hryggjarliðir hreyfast. Markmið er að athuga og meta gæði hreyfingar á smáliðamótum á beinboga hryggjarliða. Á ákveðinn og djarflega skipulagðan hátt skoðaði hann hvernig harður hryggjarliðurinn hreyfðist með nærliggjandi liðum, og notaði það sem aðal aðferðafræði til að grundvalla meðferð á. Hreyfing hryggjarliða er vissulega síbreytileg þar sem hryggurinn aðlagar sig að breyttu tilfinningaástandi og hver og einn stillir sig af verkjalaust. Gillet kom þar með fram á sjónarsviðið nýja hugmynd um “subluxation”. Í staðinn fyrir gamla hugmynd um verk sem er framkallaður við stöðu skekkju á milli hryggjarliða sem var kenning sem fylgjendur Gonstead leita af á roentgenmynd. Má nefna kenningu Gillets sem óvirka liðhreifingu sem hann nefndi sjálfur á ensku “motion palpation”. Hann byggði eða mótaði kerfi sem er notað víða í dag sem markmið til að finna meðferðarúrræði í hnykkingu hryggjar. Síðar hafa fylgjendur aðferðafræði Gillets notast við það sem nefna má á íslensku mein í starfandi hreyfibili hryggjarliða (functional unit lesion) til að skýra út mun á eðlilega starandi hreyfibili hryggjarliða og þess liðils sem veila eða kvilli finnst í.Aðferðin krefst ekki Gostead heilhryggmynda. Frekar eru roentgenmyndir notaðar til að útiloka önnur mein en má rekja til skertrar hreyfigetu, svo sem æxlismyndunar, bólgu af sýkingu eða beinbrot eftir slys. Aðferðafræðin er mjög hentug tækni til að finna rétta hnykkingu á hryggjarliðum og einnig til að minnka líkur á óþægilegum aukaáhrifum meðferðar.

Aðferðafræði Gonstead. Daníel David Palmer, sem bjó til grunn kírópraktorfræða árið 1895, sá nauðsyn þess að setja saman kerfi sem skýrir aðferð á hnykkingu hryggjarliða. Hann grundaði aðferðafræðina á gamalli hugmyndafræði af “bonesetting” sem var þekkt hjá bændum og annars konar meðferðaraðilum í Englandi og öðrum stöðum í Evrópu. Þessi annars konar meðferð og var sama og sú sem Cyriax hreifst af og hann þróaði í beinalæknisfræði í Bretlandi. Hnykkjarinn á þeim tíma hafði þá skoðun að liðverkur væri vegna þess að liðurinn væri úr stað. Rökrétt hugsun fylgdi að lækningin hlyti að felast í því að hreyfa liðinn aftur á sinn stað. Þess vegna voru þeir kallaðir “bonesetters.” Í fræðum Palmers þróaðist hugmyndin að hryggjarliður sem fór úr línu við aðra liði í sama hluta hryggjar valdi verk , og þá væri hægt að laga verkinn með því að hreyfa liðinn með því að raða honum aftur í línu við aðra liði og fyrirbyggja um leið einkennin. Tækninýjungar í roentgentækjum breyttu hugmyndum Palmers þegar sonur hans B.J. kom fram á sjónarsviðið. Á þeim tíma sem læknisfræðin var rétt að byrja að nota tæki til myndgreiningar á vefjameinum, fékk B.J. sér slíkt tæki og bjó til “spinograph” sem gerði honum kleyft að taka mynd af öllum hryggnum sem var ólík nokkurri mynd sem læknar notuðu. Rökin fyrir því að mynda hrygginn á heilhryggjarmynd var sá að kírópraktorinn gæti notað heilhryggsmyndirnar til að grunda meðferðarúrræði. Kírópraktorinn finnur út með mælingu á afstöðu hryggjarliða hver til annars hvernig hnykkvektor á að nota í hnykkingu. Þeir kírópraktorar sem aðhyllast aðferðfræðinni telja að þeir geti stýrt hnykkátakinu af meiri nákvæmni ef kírópraktorinn sér nákvæmlega hvernig lega hryggjarliðarins sem verkurinn kemur frá er og þá í samhengi við liðina fyrir ofan og neðan. Hugmyndir frumkvöðla kírópraktor í BNA halda í tækniþróun í roentgemyndatöku sem var þróuð og kennd af Clarence Gonstead um miðja tuttugustu öldina. Hliðar og fram-aftur heilhryggjarmyndir eru mældar af fylgimönnum Gonstead í viðleitni þeirra til að finna hvaða hryggjarliðir þarf að endurraða með hnykkátaki í rétta línu. (Stuðst við “Alternativa and conventional medicine in Iceland” heilbrigðisskýrslur fylgirit nr. 1, 2000).

 

Tryggvi Jónasson kírópraktor, 2002, endurskoðað 2016.